Fréttir
Endurvinnsla menningararfsins
- ljóð.is bregður á leik á Menningarnótt

Á Menningarnótt næstkomandi laugardag 20. ágúst mun ljóð.is bregða á leik með hinum almenna borgara og endurvinna orðasafn tveggja þekktra texta, annars vegar þjóðsöngs Íslendinga eftir Matthías Jochumsson og hinsvegar Ó borg, mín borg eftir Vilhjálm frá Skáholti.

 

Leikurinn er stækkuð og endurbætt útgáfa af svokölluðum 'kæliskápaljóðum' og fer þannig fram að hvert orð úr ljóðunum verður sett á hvítan límmiða á seguldúk. Komið verður fyrir sérstaklega útbúnum standi í miðbænum (á Lækjartorgi eða Ingólfstorgi) og þar geta allir áhugasamir vegfarendur heiðrað menningararfinn með því að skapa sitt eigið, nýtt og frumsamið ljóð úr orðunum sem er að finna í þjóðsöngnum og Ó borg, mín borg. Tekin verður mynd af öllum ljóðum sem fæðast og afraksturinn birtur á ljóð.is í kjölfarið.

 

Nánari tímasetning og staðsetning verður auglýst síðar, en standurinn verður stór og veglegur og ætti ekki að fara framhjá neinum sem leggur leið sína í miðbæ Reykjavíkur á laugardaginn.

 

Láttu sjá þig, spreyttu þig á skáldagáfunni og taktu þátt í því að endurvinna menningararfinn.