<p>- púnktur, net</p>
Kæri fjölmiðill, vefstjóri, vinur eða kunningi. Ljóðavefurinn Tíu þúsund tregawött, sem starfræktur hefur verið frá því í byrjun maí-mánaðar og hefur notið fádæma vinsælda meðal ljóðaunnenda af öllu tagi, hefur flutt sig um set. Nýtt heimilisfang vefsins er www.tregawott.net. Á þeim tíma sem vefurinn hefur verið starfræktur hafa birst á honum fjöldamörg íslensk ljóð, jafnt frá eldri skáldum sem sannað hafa sig í ljóðsins ólgusjó, sem og nýrri óútgefnum skáldum sem eiga eftir að sýna til fulls hvað í þeim býr. Þá hafa birst á vefnum ótal umsagnir um ljóðabækur, fundin ljóð, myndbönd af ljóðaupplestrum, ljóðrænar stuttmyndir, ljóðahljóð, upplestrar á mp3, greinar um ljóðlist og fréttir úr ljóðaheimum auk margra ljóðaþýðinga. Stærstur hluti þess efnis sem birst hefur á Tregawöttunum hefur frumbirst þar, og því ljóst að Tregawöttin hafa sannað sig vera það afl í íslenskri ljóðlist sem til stóð. Landeigendur á netinu viljum við biðja um að breyta hlekkjum, og þeir sem enn hafa ekki hlekkjað ættu að gera það hið snarasta svo þeir verði ekki út undan á internetinu.
Fjölmiðlar mættu gjarnan minnast á flutning vefritsins - þó ekki væri nema í litlum dálkum og fáum orðum.
Óbreyttum netnotendum og ljóðaunnendum viljum við benda á að heimsækja síðuna. Vonir standa til að hún verði áfram mikið uppfærð. Útgefendum bendum við á að hægt verður að fara fram á umfjöllun um tilteknar bækur á síðunni, hvort sem er nýútgefnar íslenskar ljóðabækur, eldri íslenskar ljóðabækur eða bækur með ljóðaþýðingum. Bókaútgefendum er bent að hafa samband á tiuthusundtregawott@gmail.com, æski þeir sérstakrar umfjöllunar, ritdóms eða birtingar efnis úr bókum. Ljóðskáldum, bókmenntafræðingum, þýðendum og ljóðaunnendum bendum við enn á ný á að senda inn efni. Netfangið er tiuthusundtregawott@gmail.comAð ritstjórn vefritsins standa Ásgeir H. Ingólfsson, bókmenntafræðingur, Eiríkur Örn Norðdahl, ljóðskáld, Hildur Lilliendahl, ljóðskáld, Ingi Björn Guðnason, bókmenntafræðingur og Ingólfur Gíslason, stærðfræðingur. Með bestu kveðju, Ritstjórn Tíu þúsund tregawatta - www.tregawott.net