Fréttir
Ný bók frá DEUS
- Hlaupár eftir Þór Stefánsson

Út er komin ljóðabókin „Hlaupár" eftir Þór Stefánsson. Í bókinni eru 366 hækur, jafnmargar og dagarnir í hlaupárinu. Það er því tilvalið fyrir lesendur að fara með eina hæku út í hvern dag næsta árið. Bókinni er skipt í fjóra kafla eftir árstíðunum.  „Hlaupár" er sjöunda frumsamda ljóðabók Þórs sem hefur einnig sent frá sér sjö bækur með þýddum ljóðum, nú síðast sýnisbækur íslenskra skálda á frönsku og Québecskálda á íslensku. Sigurður Þórir sér um útlit bókarinnar og teiknar myndir í hana. Þeir félagar hafa áður átt farsælt samstarf því að þetta er þriðja bók Þórs sem Sigurður Þórir myndskreytir en hann hefur séð um útlit og kápumynd fleiri bóka skáldsins.  Yrkisefni bókarinnar eru margvísleg. Eins og í fyrri verkum Þórs eru í bókinni hugleiðingar um hvunndaginn og mannlegar tilfinningar eru rannsakaðar. Ástin fær sinn skerf en það heyrir kannski til nýmæla í bókum Þórs að hér er einnig ort um hatrið. „Hlaupár" er að miklu leyti ort í Frakklandi en Þór gegndi stöðu sendikennara við háskólann í Lyon síðastliðin þrjú ár.  „Hlaupár" er 137 blaðsíður og ljóðaforlagið DEUS gefur bókina út.