Fréttir
Ljóðaþýðingar Eiríks Arnar Norðdahl
- 131.839 slög með bilum

Út er komin hjá forlaginu Ntamo ljóðaþýðingasafnið 131.839 slög með bilum. Í bókinni er að finna 90 ljóð eftir 61 skáld, í þýðingu Eiríks Arnar Norðdahl, sem valdi ljóðin, ritstýrði og ritaði formála. Nær öll skáldin eru núlifandi, en þó eru á því fáeinar undantekningar, og öll utan eitt eru útlensk. Ljóðin eru þýdd úr dönsku, sænsku, norsku, þýsku, og ensku. Meðal þeirra sem eiga ljóð í bókinni eru a.rawlings, Linh Dinh og Markku Paasonen, en þau verða öll gestir 3ju alþjóðlegu ljóðahátíðar Nýhils, sem haldin verður um miðjan október. Af fyrri gestum ljóðahátíðar Nýhils sem eiga verk í bókinni má nefna Christian Bök, Derek Beaulieu, Katie Degentesh, Leevi Lehto, Jesse Ball, og Önnu Hallberg. Höfundar ljóðanna eru allir í fremstu víglínu ljóðlistarinnar í heimalöndum sínum, margir hafa verið þýddir á fjölmörg tungumál, nöfn sumra þeirra hafa þegar verið rituð í bókmenntasöguna, og aðrir eiga þar vísan sess þegar fram líða stundir.Á kápu bókarinnar segir rithöfundurinn Sjón: „Fátt studdi meira við endurnýjun íslenskrar ljóðlistar á sjötta og sjöunda áratugnum en safnbókin „Erlend nútímaljóð“. Hér hefur Eiríkur Örn Norðdahl leikið sama leik, valið og þýtt ljóð eftir núlifandi útlend skáld. Án efa verður efni bókarinnar yngri sem eldri lesendum innblástur, fyrir utan að hún sýnir okkur að enn einu sinni lifum við á gullöld ljóðsins.“Ntamo er svokallað „print-on-demand“ forlag rekið af finnska ljóðskáldinu Leevi Lehto, og samkvæmt hugsjóninni um þriðju prentbyltinguna. Í þessu felst að forlagið stundar engar fjárfestingar, og er hver bók prentuð þegar hún er pöntuð, auk þess sem engin fríeintök eru gefin af bókinni – hvorki til höfunda, þýðanda né til fjölmiðla. Fjölmiðlar geta engu að síður fengið bókina í pdf-formi, sé þess krafist, eða keypt sín eigin eintök.Bókin kostar 14 evrur, auk sendingarkostnaðar og tolls, og er fáanleg í gegnum heimasíðu Ntamo, www.ntamo.blogspot.com. Bókin verður einnig fáanleg í bókahorni Nýhils í Smekkleysubúðinni.Halldór Arnar Úlfarsson á kápumynd, en Lauri Wuolio hannar.Fyrirspurnir vegna bókarinnar skal senda á kolbrunarskald@hotmail.com.Eiríkur Örn Norðdahl hefur áður gefið út ljóðabækurnar Heimsendapestir, Nihil Obstat og Blandarabrandarar, auk þess sem hann gaf út bókina Handsprengja í morgunsárið ásamt Ingólfi Gíslasyni. Þá ritstýrði hann bókinni Af ljóðum, og gaf nýlega út ljóðaþýðingasafnið 131.839 slög með bilum, þar sem finna má þýðingar á verkum 61 skálds, að mestu eftir erlend samtímaskáld. Eiríkur er einnig höfundur skáldsagnanna Hugsjónadruslan og Eitur fyrir byrjendur. Eiríkur er búsettur í Helsinki, en verður staddur á Íslandi 8. – 15. október næstkomandi til að kynna tvær nýjar bækur og taka þátt í ljóðahátíð Nýhils.Á næstu vikum er von á fjórðu ljóðabók hans, Þjónn, það er Fönix í öskubakkanum mínum.