- miðvikudaginn 14. nóvember
Skáldafélagið Nykur stendur fyrir ljóðakvöldi til heiðurs Þórði Helgasyni, dósent og ljóðskáldi, en hann varð sextugur þann 5. nóvember. Þórðarvaka fer fram miðvikudagskvöldið 14. nóvember kl. 20:00 á efri hæð Café Sólons í Bankastræti.
Þórður var Nykri innan handar þegar félagið steig sín fyrstu skref árið 1995, auk þess sem hann hefur liðsinnt fjölmörgum ljóðskáldum og rithöfundum í gegnum árin. Í gegnum starf sitt hjá Kennaraháskóla Íslands hefur hann leitt stóran hóp kennaranema inn í ranghala ljóðlistarinnar og þannig stutt við ljóðið innvortis í menntakerfinu. Nykur sýnir þakklæti sitt í verki með því að smala ljóðskáldum á Þórðarvöku og bjóða upp á safaríka heiðursdagskrá. Þau skáld og rithöfundar sem lesa upp úr verkum sínum á Þórðarvöku eru:
Andri Snær Magnason
Arngrímur Vídalín
Davíð Stefánsson
Emil Hjörvar Petersen
Guðmundur Óskarsson
Ingunn Snædal
Kjartan Hallur Grétarsson
Sigtryggur Magnason
Sigurbjörg Þrastardóttir
og Þórður Helgason sjálfur
Að auki verður lesið úr verkum Sigurlínar Bjarneyjar Gísladóttur, Toshikis Toma og Kára Páls Óskarssonar, en bækur þeirra þriggja, ásamt bókum frá Emil Hjörvari Petersen og Guðmundi Óskarssyni, mynda fimm bóka uppskeru Nykurs árið 2007. Í hléi spilar hljómsveitin Malneirophrenia epíska og svala tóna fyrir gesti kvöldsins. Tilboð á veitingum, aðgangur ókeypis og allir ljóðaunnendur velkomnir!
- Fyrir nánari upplýsingar: Davíð Stefánsson (s: 820-5516, netfang: david@ljod.is ) og Emil Hjörvar Petersen (s: 869-8391, netfang: emil@hi.is).