Fréttir
Skáld heiðra Sigurð Pálsson
 - á Kaffi Rósenberg þriðjudaginn 7. október

Fyrir skemmstu gaf JPV-útgáfa út bókina Ljóðnámusafn eftir Sigurð Pálsson. Í bókinni er þremur af eldri bókum Sigurðar safnað saman í eina; bókunum Ljóð námu land, Ljóð námu menn og Ljóð námu völd sem komu fyrst út á árunum 1985 - 1990. Ljóðnámusafn er annað ljóðasafn Sigurðar en áður hefur komið út bókin Ljóðvegasafn.Til að fagna útgáfunni mun fjöldi annarra skálda lesa ljóð eftir Sigurð að eigin vali næstkomandi þriðjudagskvöld. Meðal lesara verða Thor Vilhjálmsson, Þorsteinn frá Hamri, Guðrún Eva Mínervudóttir, Vilborg Dagbjartsdóttir, Sigtryggur Magnason, Kristín Svava Tómasdóttir, Linda Vilhjálmsdóttir og Pétur Gunnarsson. Hvert skáld les tvö ljóð. Henrik Björnsson, söngvari hljómsveitarinnar Singapore Sling, lýkur kvöldinu með tónlistaratriði. Kristján Þórður Hrafnsson verður kynnir og stýrir kvöldinu.Bókin verður til sölu á staðnum og Sigurður Pálsson áritar.Ljóðakvöldið fer fram á Kaffi Rósenberg við Klapparstíg þriðjudaginn 7. október og hefst klukkan 21:00. Allir velkomnir.