Fréttir
Ljóðskáldin út úr rykfallna skápnum!
- <STRONG>Skáldat ljóð.is og Eddu-útgáfu</STRONG> á Menningarnótt 21. ágúst

Nú blása ljóð.is og Edda-útgáfa til stórsóknar í ljóðabransanum.

Í anda hins alræmda og ameríska Idols verður haldin stórkeppnin Skáldat 2004 í Tjarnarbíói á Menningarnótt, 21. ágúst stundvíslega kl. 20:00.

Tilgangur keppninnar er að fá hin oft innhverfu og feimnu ljóðskáld til að tjá sig af fullum krafti og alvöru. Dæmt verður fyrir gæði ljóða til jafns við flutninginn sjálfan, og því er mikilvægt að skáldin leggi nokkra æfingu í flutninginn í stað þess að lesa upp beint af blaðinu.

Fyrirkomulag keppninnar er annars á þennan veg:  

10 ljóðskáld taka þátt í keppninni

  1. umferð

Skáldin lesa ljóð að eigin vali eftir annan höfund. Aðeins er eitt skilyrði: að ljóðið sé meira en 50 ára gamalt. Dómnefnd og áhorfendur greiða atkvæði.

  1. umferð

Skáldin flytja eitt frumsamið ljóð. Dómnefnd og áhorfendur greiða atkvæði. 3. umferð-úrslit

Tvö til þrjú stigahæstu skáldin komast áfram í þriðju og síðustu umferðina. Þar fer fram nútímaútgáfan af því að botna fyrripart. Skáldin fá í hendurnar tvær fyrirframgefnar ljóðlínur og þurfa á skömmum tíma að spinna sínar eigin ljóðlínur utan um þær. Dómnefnd og áhorfendur greiða atkvæði og útnefna þannig Skáldatsmeistara ljóð.is 2004.

 

Með þessu fyrirkomulagi kemur eftirfarandi fram: Smekkur skáldsins á ljóðum annarra og meðferð þess í flutningi, hæfni skáldsins í eigin yrkingum og flutningi og hæfni skáldsins í að semja ljóð undir pressu.

 

Dómnefnd mun samanstanda af þjóðþekktum einstaklingum, bókmenntafræðingum í bland við almenna borgara. Vegleg verðlaun eru í boði, þátttökugjald er ekkert, og aðgangseyrir enginn.

 

Vilt þú taka þátt? Það eina sem þú þarft að gera er að senda 5 bestu ljóðin þín í Word-skjali á david@ljod.is. Láttu fylgja með frekari upplýsingar um þig, t.d. kennitölu, símanúmer (mikilvægt), heimilisfang og hvort þú hefur gefið út ljóðabækur eða birt ljóð einhversstaðar áður. Allir geta tekið þátt í Skáldati 2004.

 

Skráningu lýkur á miðnætti miðvikudaginn 18. ágúst 2004. Umsóknir sem berast eftir þann tíma verða ekki teknar til greina.