Fréttir
Kristján Hreinsson bar sigur úr býtum
- í Skáldati 2004 - gríðarleg stemmning, sviti og blammeringar!

Kristján Hreinsson bar sigur úr býtum í Skáldati ljóð.is og Eddu-útgáfu, sem fram fór í Tjarnarbíói á Menningarnótt. Í úrslitaumferðinni atti hann kappi við kollega sinn, Þorstein Eggertsson. Báðir hlutu þeir dynjandi lófaklapp áhorfenda en dómnefndin valdi Kristján fram yfir Þorstein, sem að launum hlaut 25.000 króna ferðavinning í boði Eddu-útgáfu.   Almenn ánægja var með uppákomuna, þrátt fyrir nokkra smávægilega hnökra á forminu. Nokkuð var um símhringingar í salnum (sem óneitanlega er truflandi fyrir skáldið sem flytur ljóð sitt) og tvö ljóðelsk börn ollu nokkurri truflun í fyrstu umferðinni. Það kom þó ekki svo mjög að sök.   Önnur umferðin, þar sem skáldin fengu 3 mínútur til að flytja eigin ljóð, var einstaklega skemmtileg. Á eftir hverjum flutningi dró Þorleifur Örn Arnarson, kynnir, umsagnir upp úr dómendum, og myndaðist fljótlega at í fyndni á milli Sverris Stormsker og Erps Eyvindarsonar. Svanhildur Óskarsdóttir, þriðji dómarinn, var óneitanlega þeirra prúðust, en þó vel gagnrýnin.   Mál manna var að innlegg dómnefndar hefðu gefið keppninni mikið gildi. Þarna komu fram mjög ólíkar skoðanir á eðli ljóðsins og hvernig dæma beri ljóð og flutning þeirra. Enda var það tilgangurinn með því að hafa dæmendur og keppendur úr ýmsum áttum og á ýmsum aldri.   Áhorfendur fengu að kjósa sín uppáhaldsskáld að loknum tveimur umferðum, og niðurstaða þeirra og dómnefndar var að Kristján og Þorsteinn ættu helst skilið sæti í úrslitum. Þar upphófst einstaklega skemmtilegur ljóðagjörningur, sem að mati skipuleggjenda keppninnar var hámark hennar.   Gjörningurinn fór þannig fram að skáldin tvö voru sett á stóla fremst á sviðinu. Þau fengu svo þrjár mínútur til að spinna ljóð út frá tveimur ljóðlínum eftir Jónas Hallgrímsson. Alger þögn ríkti í þessar þrjár mínútur á meðan áhorfendur fylgdust spenntir með skáldunum brjóta heilann og hripa orð sín niður á blað. Skáldin lásu svo ljóð sín, og að loknu lófaklappi áhorfenda tilkynntu dómendur niðurstöðu sína.   Ljóst er að fínpússa þarf ýmsa hnökra af keppni sem þessari. Engu að síður heppnaðist þetta ótrúlega vel, sé miðað við að rennt var blint í sjóinn með alla framkvæmd. Áhorfendur tóku virkan þátt með lófaklappi og atkvæðagreiðslu og skemmtu sér konunglega, bæði yfir ljóðum skáldanna og athugasemdum dómenda.   Rennerí sem einkennir Menningarnótt var sennilega ekki til bóta, enda hafa strax komið upp hugmyndir um að halda næsta Skáldat á Degi íslenskrar tungu og 4ra ára afmælisdegi ljóð.is, 16. nóvember 2005.   Ljóð.is vill þakka öllum sem komu að skipulaginu, meðlimum Malbiks (og aukameðlimum, Berglindi, Jóhönnu og vinkonum), Eddu-útgáfu, www.skilti.is, Hinu Húsinu og Reykjavíkurborg.   Sérstakar þakkir fá þeir Haukur Ingvarsson, ljóðskáld, en væntanleg er ljóðabók hans frá Eddu-útgáfu í vetur, og Skúli trúbador, en þeir sáu um að skemmta áhorfendum á meðan atkvæði voru talin.   Að ári, enn meira og stærra!