- Mótmæli með þátttöku
Út er komin ný ljóðabók eftir Kristian Guttesen. Hann hefur áður gefið út ljóðabækurnar Afturgöngur, Skuggaljóð, Annó & Ígull. Mótmæli með þátttöku, sem ber undirtitilinn bítsaga", er safn ljóðaprósa í anda forms sem Danir kalla punktroman" og myndar heilstæða frásögn. Kristian byrjaði að yrkja á sínu 21. aldursári, sumarið 1994, þegar hann dvaldi í Ísrael með tímabundna vegabréfsáritun og vann svart á kóralbáti við nyrstu bakka Rauða Hafsins. Ári síðar kom út fyrsta ljóðabókin hans, Afturgöngur, og segir í þeirri bók frá svaðilförum hans í suðurhöfum. Á næstu árum dvaldi hann í Bretlandi og sendi frá sér tvær bækur, á ensku og á íslensku, sem segja frá hraðri atburðarás og kynnum Kristians af bresku andófi tíunda áratugarins eða skemmtanalífinu í Helvíti" eins og hann lýsir því sjálfur. Fyrir síðustu jól kom út bókin Ígull sem hefur selst vel í götusölu. Hér heimafyrir hefur Kristian tekið þátt í skipulagningu fjölda upplestra, svo sem Jólaljóðum á Dubliner árið 2002, List gegn stríði í Austurbæ og Ljóð í myrkrið í Þjóðleikhúskjallaranum árið 2003. Hann hefur birt viðtöl, sögur, greinar og ljóð í tímaritum og dagblöðum á Norðurlöndum. Á þessu og næsta ári les hann upp í útvarpi í nokkrum þáttum. Hann vinnur að þýðingu á nýnorskum bókmenntum og skrifar auk þess smásögur og ljóð. Nú lítur dagsins ljós fimmta ljóðabók Kristians, Mótmæli með þátttöku: Ljóðmælandinn er á mörkum ljóss og myrkurs og hann sér svipmyndir úr lífi sínu renna hjá eins og í kvikmynd. Hér fara saman skörp myndskeið og hugrenningar sem gefa lesanda aðra sýn á veruleikann." Birgitta Jónsdóttir sá um hönnun kápu og útlit. Bókin er 62 bls. Útgefandi er Bókaútgáfan Salka.