Fréttir
Kvenskörungakvöld Rúnu K. Tetzschner
- 10. nóvember kl. 20:30

Fréttatilkynning frá Rúnu K. Tetzschner

Heil og sæl öll. Ég hef jafnan haft tilhneigingu til að umvefja mig karlmannlegri nálægð á uppákomum mínum. Þrátt fyrir ýmsa tilburði í þá áttina hefur það þó ekki tekist að þessu sinni og flýja karlarnir jafnvel af landi brott!!!

Niðurstaðan er í raun dásamleg því 10. nóv. kl. 20:30 verður haldið sannkallað kvenskörungakvöld á Horninu í Hafnarstræti 15. Ósk Óskarsdóttir syngur, leikur á gítar og flautu, Birna Þórðardóttir, Elísabet Jökulsdóttir, ég sjálf, Vilborg Dagbjartsdóttir og systurdætur hennar tvær: Stefanía og Hallgerður Gísladætur flytjum ljóð okkar. Við fögnum sumar útkomu nýrra ljóðabóka og kvöldið er tileinkað útkomu nýrra handskreyttra ljóðakorta með ljóðum eftir Birnu, Elísabetu, Hallgerði, Gunnar Dal, Einar Má Guðmundsson, Þorgeir Kjartansson og mig sem ég hef skrautskrifað og myndskreytt. Mun ég setja upp tækifærissýningu á skrautskrifuðum ljóðum meðan kvöldið varir. Okkur vantar kynningu í fjölmiðlum fyrir þetta forvitnilega kvöld en ég vænti þess að hinn undursamlegi hópur sem þarna kemur saman muni hafa víðtækt aðdráttarafl og skapa hrífandi andrúmsloft fyrir karla jafnt sem konur!