Fréttir
Ný ljóðabók eftir Hauk Ingvarsson
- Niðurfall - og þættir af hinum dularfulla Manga

Hjá Máli og menningu er komin út ljóðabókin Niðurfall - og þættir af hinum dularfulla Manga eftir Hauk Ingvarsson.

„Eftir að ég las bókina Breiðholtsstrákur fer í sveit jólin 1989 varð mér ljóst að ég myndi aldrei ná fullum þroska innan marka borgarinnar. Þegar leið á veturinn færði ég í tal við foreldra mína að ég vildi fara í sveit helst á óðal móðurættar minnar í Norðdahl. Erindið var auðsótt og leyst úr því greiðlega. Um páskana hringdi móðir mín norður, skiptist á hnitmiðuðum setningum um sauðburð við manneskjuna á hinum enda línunnar og að samtalinu loknu tilkynnti hún mér brottfarardaginn. Ég átti erfitt með einbeitingu síðustu vikurnar í skólanum því ég gat ekki beðið eftir að komast á vit menningarinnar; á söguslóðir Íslendingasagna þar sem ég gæti stælt líkama minn og hert taugarnar í baráttu við óblíða íslenska veðráttu en jafnframt brugðið á leik við frjálsborin ungmenni á bænum og bæjunum í kring ...“

Niðurfall - og þættir af hinum dularfulla Manga er fyrsta bók Hauks Ingvarssonar. Hér takast snörp ljóð á við lengri texta um ævintýri ljóðmælanda og vinar hans í sveit og borg. Haukur skrifar af miklu stílöryggi og af þessari bók er ljóst að hann er öflugt skáld sem hefur ólík bókmenntaform á valdi sínu.