Fréttir
Tvær mikilvægar tilkynningar frá ljóð.is
<p>- um Framtíðarhóp og bókaútgáfu</p>

1)   Framkvæmdastjórn - Framtíðarhópur ljóð.isNú er hverjum manni ljóst að ljóð.is er orðinn að sjálfstæðri lífveru sem fyrir löngu hefur sprengt utan af sér leikskólagallann. Starfið í kringum vefinn hefur að mestu verið í höndum fárra einstaklinga, sem hefur vissa einföldunarkosti í för með sér. Ljóð.is vill hinsvegar meira. Margt er hægt að gera við þennan góða vef, og til þess þurfum við fólk til sjálfboðaliðastarfa. Við lýsum því eftir einstaklingum sem hafa áhuga á framtíðaruppbyggingarstarfi á ljóð.is (við getum kallað þetta Framtíðarhóp ljóð.is). Engin sérstök skilyrði eru sett umsækjendum, utan að blóð þeirra verður að innihalda a.m.k. 97,5% ljóð og hugsun þeirra fyrst og fremst snúast í kringum ljóð og hið ljóðræna á öllum sviðum lífsins. Reynsla af meðhöndlun texta og frumleg og drífandi hugsun er auðvitað kostur.   Ljóð.is hefur hingað til verið að mestu hlutlaus birtingargrundvöllur fyrir alla sem vilja birta ljóðin sín. Vefurinn býður hinsvegar upp á ýmsa aðra möguleika sem hafa verið vannýttir. Á 5 ára afmælinu væri því gaman að auka enn við efni og vídd vefsins.Markmiðið er að setja í gang áætlun um nýjan og betri vef seinnihlutann á þessu ári. Um langtímaskuldbindingu er að ræða.   Áhugasamir sendi nokkrar vel valdar línur á david@ljod.is fyrir 31. mars 2006.   2)

BókaútgáfaNú hefur verið ákveðið að kýla í gegn næsta útgáfuverkefni ljóð.is, verkefni sem hingað til hefur gengið undir hinu slæma vinnuheiti Ljóðafernan (titill óskast).   Hugmyndin er einföld: fjögur ljóðskáld, tuttugu og fimm ljóð á mann, hundrað ljóð í heildina, fimm hundruð prentuð eintök. Prentkostnaður og upplag dreifist í fimm hluta á milli ljóð.is og ljóðskáldanna. Ljóð.is sér um allt sýsl: samskipti við prentsmiðju, hönnun, umbrot, prentfrágang og plögg- og tilkynningamál.   Þetta er samvinnuverkefni eins og þau gerast best og upplagt tækifæri til að stíga fyrstu skrefin á hinum grimma en skemmtilega ljóðamarkaði. Ritstjóri verður hin snarpa Hildur Lilliendahl Viggósdóttir og henni til aðstoðar verður Davíð A. Stefánsson. Um raunverulega ritstjórn verður að ræða, öll ljóð tekin til skoðunar og ágæt ljóð gerð að snilldarljóðum með sameiginlegu átaki. Áhugasamir vinsamlega sendi handrit sín í Word á hildur@ljod.is fyrir 31. mars 2006. Þeir sem hafa áður svarað svipuðum pósti frá í fyrra athugi að þeirra handrit eru ekki í glatkistunni heldur uppi á borðinu.   Góðar stundir,ljóð.is