Fréttir
Sigurskáldið 2006
<p>- skilafrestur til 5. apríl 2006</p>

Edda og Fréttablaðið hleypa nú af stokkunum ljóðakeppninni Sigurskáldið 2006. Samskonar keppni var haldin í Viku bókarinnar fyrir tveimur árum og stóð Kristín Eiríksdóttir þá uppi sem sigurvegari. Sigurskáldið 2004 mæltist geysilega vel fyrir og það er ekki síst fyrir hvatningarorð margra sem muna eftir þeirri skemmtilegu keppni að nú er farið aftur af stað.   Frá og með föstudeginum 17. mars er því öllum sem fæddir eru á árinu 1976 og síðar heimilt að senda eins mörg ljóð og þá lystir á ljod@edda.is . Fresturinn til að skila inn ljóðum rennur svo út miðvikudaginn 5. apríl og þá kemur til kasta dómnefndar. Ef miða á við viðbrögðin fyrir tveimur árum mun hún hafa ærin starfa fyrir höndum því alls bárust þá um 300 ljóð eftir rétt rúmlega 100 keppendur. Dómnefndin velur 8 ljóð sem birt verða tvö og tvö hvern dag í Viku bókarinnar og gefst lesendum Fréttablaðsins kostur á að kjósa það sem þeim líst best á í símkosningu. Keppa ljóðskáldin svo hvert við annað uns eitt þeirra stendur uppi sem sigurvegari.

Dómnefndina skipa að þessu sinni Þórarinn Þórarinsson frá Fréttablaðinu, Kristján B. Jónasson frá Eddu útgáfu og Ragnheiður Eiríksdóttir - Heiða í Unun - , sem er fulltrúi ákafra lesenda.   Sigurskáldið 2004, Kristín Eiríksdóttir, hefur ekki látið deigan síga frá því að hún vann keppnina. Sama ár kom út fyrsta bók hennar Kjötbærinn og nýverið gerði hún útgáfusamning við Eddu útgáfu og er að öllum líkindum væntanleg bók frá hennar hendi nú í haust. Við hjá Eddu erum rífandi ánægð að fá í raðir okkar höfunda þetta framtíðarstórskáld.

F.h. Eddu Kristján B. Jónasson

 - - - - - - - - - - - Ljóð.is hvetur alla notendur sína til að taka þátt í keppninni af fullum krafti.