Fréttir
Upprisukvöld Nykurs
- Café Rósenberg, 28. júní kl. 22:00

Árið 1995 var Nykur stofnaður af nokkrum ungum skáldum sem bókmenntavettvangur og sjálfshjálparbókarforlag. Á vegum Nykurs komu fyrstu verk skálda og rithöfunda á borð við Andra Snæ Magnason, Davíð A. Stefánsson, Steinar Braga, Ófeig Sigurðsson og fleiri. Alls komu út 13 bækur á vegum Nykurs til ársins 2003, en þá fór hann aftur í tjörnina og beið færis.   Nú, þremur árum síðar, hefur stokkast upp og fjölgað í mannafla Nykurs. Yngri skáld hafa bæst í hópinn og flóran orðin meiri. Í kvöld mun Nykurinn koma aftur upp á yfirborðið, tvíefldur og með ferskan blæ.

Frá og með þessum tímapunkti mun Nykur verða nýtt skálda- og bókmenntaafl á Íslandi. Með haustinu munu koma út bækur nokkurra skálda undir merkjum Nykurs.

Upprisukvöldið mun fara fram á Cafe Rósenberg miðvikudagskvöldið 28. júní kl. 22:00.

Skáldin munu lesa upp úr frumsömdu efni, en á milli þess verður farið yfir hvað Nykur hefur gert og hver framtíð hans verður.

Nykurskáld að þessu sinni verða: Arngrímur Vídalín Davíð A. Stefánsson Emil Hjörvar Petersen Kári Páll Óskarsson Urður Snædal

Kynnir verður Hildur Lilliendahl og sérstakur gestalesari er Ingibjörg Haraldsdóttir. Allir velkomnir og aðgangur er ókeypis.