Rustasneið
Farvel, Leirgerður, drambsöm drylla,
drottnunargjörn og öfundsjúk!
Þú skalt ei fleiru frá mér spilla,
freyddu sem best af þínum kúk!
Heyrðu hvað nett ég seinast syng:
Svei þinni hrakdóms-uppfræðing!

Skáldskapur þinn er skothent klúður
skakksettum höfuðstöfum með,
víðast hvar stendur vættar-hnúður
valinn í fleyg sem rífur tréð.
Eitt rekur sig á annars horn
eins og graðpening hendir vorn.

Oftlega millum orða tveggja
opna hljóðstafir djúpa gjá.
Ef þú nú færir eins og Sleggja,
annað skaðræðiströllið frá,
og sykkir niður sjálf á kaf
sálm mætti gjöra þar út af.

Hann væri nettast sunginn svona:
Sjá hversu angra eymdin fer!
Hún sökk - var kátlega sköpt kona -
harðkjaftur þeg! Slíkt undrast gjör!
Allt framstykkið var aftan á!
Datt öfugt - ó tjón - hryggjumst! Dó!

Þú mátt nú sjá í þessum spegli
þína skáldskapar réttu mynd.
Súptu betur á Sigtýs legli
og sogaðu ekki í þig vind!
Það kann að gera rembings raun,
ropana meiri og illan daun!  
Jón Þorláksson á Bægisá
1744 - 1819
Þetta kvæði er ort í tilefni af útkomu sálmabókar í Leirárgörðum árið 1801. Nafnið Leirgerður minnir á Leirburð. Jón lenti upp á kant við Magnús Stephensen útaf sálmabókinni.

4. erindið er skopstææling á kveðskap sálmabókarinnar.


Ljóð eftir Jón Þorláksson

Rustasneið