Landavísur [úrval]
Ísland

Grænum lauki gróa túnin,
gyllir sóley hlíða syllur,
færa víkur flyðru á vori,
fuglar syngja í Trölladyngjum,
sauðir strjálast hvítir um heiðar,
hossar laxi straumur í fossi,
bella þrumur á brúnum fjalla,
blár er himinn, snarpur er Kári.

Holland

Seg, hvort kyn sé lands eða lagar
loftgrá strönd í Rínar hvolfti;
skerast inn of akra rennur,
ævivist hefir þjóð á sævi;
morgna og kveld snýst mylnu fjöldinn,
marar þolir iðna golu;
fullum seglum fljúga of völlu
fley á lagar þröngum vegi.

Spánn

Spánn er fjall með feiknastöllum,
flatur á koll, en ránar tolla
gjalda elfir; ærið silfur
út úr fargast Sagarbjargi;
suður gnóg er sæld í hlíðum,
sæt eru granateplin; kætast
drósir víni í Vandalhúsum,
vex þar auður af frjóvgan sauða.  
Þorleifur Repp
1794 - 1857


Ljóð eftir Þorleif Repp

Landavísur [úrval]