Tíminn og ég.
Tíminn líður og tekur daginn frá mér,
tregafull hjörtu slá bak við glugga, rótt,
Kvöldhúmið birtist, kvæði þess gista hjá mér,
kannski ég lesi eitt, fyrir svefninn í nótt.
Og það er svo misjafnt, sem mennina langar að lifa,
lífið er skáldverk, sem fullt er af óskum og trega,
dauðinn er penni í hendi sem hættir að skrifa
í hálfnaðri vísu sem rímar hið óskiljanlega.

Tíminn líður í takti við Guð og geiminn,
gjarnan er spurt: Hvað er handan vorsins og dagsins?
En það er svo erfitt að koma höndum á heiminn,
og henda reiður á spurningum sólarlagsins.
Og ljóð mitt dvelur í hug mér sem heilög kirkja,
í hendi mér kyndill, sem gerir nóttina bjarta.
Ég skála við tímann og tunga hans tekur að yrkja,
í takti við daginn, sem kveður mitt spyrjandi hjarta.  
Grétar Kristjónsson
1944 - ...


Ljóð eftir Grétari Kristjónssyni

Tíminn og ég.