Andri á Sléttu
Ég er með sama varaplan og Andri Snær
nema í mínu tilfelli er kannski réttara að tala um draum.
Svona eins og kínadraumar heróínneytenda.

Silungstanginn var alveg með þetta í fyrstu bókinni sinni.
Nær allar mínar uppáhalds bækur eru fyrstu bækur.
Nema kannski í tilfelli Andra, þar finnst mér ástarhnötturinn fremstur.

Þarf að spurja hann nokkurra spurninga um tengsl hans við alheimssamvitundina þegar að við hittumst á sléttunni.
Sem sjálfsagt verður innan skamms
ef svo fer sem fram horfir

Annars veit ég ekki hvort hann þori að heilsa mér vitandi af því hvað ég á mörg firstadagsumslög.
Kannski við bara smellum í eina fimmu og förum svo hvor sinn veg.
Eins og njálsungur gerir við landann.

Ég þyrfti að hala niður veraldarvefnum á harða diskinn
í fartölvunni minni áður en ég héldi á sléttuna, vefurinn er fyrir löngu búinn að koma í stað langtímaminnis hjá mér.
Það væri agalegt að vera á sléttunni og geta t.d ekki flett upp á
hvað söngkonan í "enginn vafi" heitir, svona ef það myndi leita á mann.

Svo er sléttan svo fögur að margir sem koma þangað verða fyrir svo magnaðri lífsreynslu að þeir vilja aldrei koma þangað aftur.
Þetta hljómar kannski eins og öfugmæli en svona fer hræðslan um að
minningarnar missi ljóman sinn, með menn.
Þó það sé nú eiginlega gefins að miðnætursólin skíni næsta dag og næsta sumar. Það er reyndar líka gefið að sléttunni þykir lítið til dreymandi ferðalanga og skálda með skrítnar pælingar koma.

Og talandi um að fá slagi gefins, þá er mikið spilað á sléttunni.
Þó lítið sé gefið í þeirri spilamennsku. Nema kannski brennivín í mótherjann og áminningar á makkerinn, aldrei rauða spjaldið samt.
Því það verður að halda spilinu gangandi, spila þar til sólin sest.
Lítið annað að gera á sléttunni.  
holt
1978 - ...


Ljóð eftir óholt

Andri á Sléttu