Dagur og nótt
Hann hét Dagur og hún hét Nótt. Saman undu þau sér áður en veröldin varð til. Í frumsköpun heims voru þau síðan aðskilin af Guði. Og Nótt þráði Dag áfram eins og Dagur hafði áður þráð Nótt.
Sagan segir að eftir þennan aðskilnað hafi Dagur leitað heimskauta á milli að Nótt, en ekki fundið. Þá hafi hann svarið þess eið að hann mundi rísa úr gröf sinni og ekki una sér hvíldar fyrr en hann fyndi hana. Þegar svardagi þessi barst Nótt til eyrna, sór hún hinn sama eið og sagði að ást þeirra ætti engan sinn líka í heiminum. Við þetta reiddist Guð því hann taldi þau tilbiðja hvort annað meira en hann sjálfan. Í refsingarskyni mælti hann svo fyrir að Dagur og Nótt mættu aldrei finnast, en svardagi þeirra skyldi standa.
Svo Guð skapaði “dag” og “nótt”. Myndu þau verða birta og myrkur mannfólksins og ávalt rísa úr dánarbeð sínum til að leita hvors annars.
Eftir að skipan þessi varð að veruleika mun Nótt hafa fært örlög sín í ljóð, og hljóðar það svo:


Hvar ertu dagur
draumur minn eini?
Ég gleymi mér sjálfri
í eigin skugga
fæ ekki séð þig
í veröld án spegils.

Minn þorsti
sem drekka vildi vatnið
er horfinn
orðinn að svartnætti
sem er ég sjálf
hálf af Engu
sem býr mér í brjósti.

Að nótt og dagur
rynnu í eitt
eitt sem að enginn
fengi sundur skilið
ég óska þess
óska þess svo ofurheitt
að upplifa augnablikið.
 
Papillon
1973 - ...


Ljóð eftir Papillon

Vetrarhjartað þiðnar
Á landamærum
Dagur og nótt