Möl
Orðið garður
hleraði ég úr munni nágranna míns
eitt síðdegið við opinn stofugluggann.
Vafalaust átti hann við baklóðina hjá sér:

grýtta blettinn með öskutunnunum
sem ég ímynda mér alltaf að sé samskonar landslag
og hann klöngrast yfir á hverjum degi
í höfði sínu.

En þennan dag var hann að útskýra fyrir öðrum manni
þessa auðn, þennan litla skika,
sem hann vissulega drottnaði yfir, engin spurning.
Og til þess notaði hann hendur og fætur:

fæturna til að róta í mölinni;
hendurnar til að sýna fram á
að þrátt fyrir allt væri hann lifandi, þetta væri ekki
sín ómerkta gröf.
 
Bragi Ólafsson
1962 - ...
Úr bókinni Klink.
Bjartur, 1995.
Allur réttur áskilinn höfundi.


Ljóð eftir Braga Ólafsson

Nekt
Frá heimsþingi esperantista
Möl