27 skáld
Já, þú ert vont skáld en ert samt skáld
Og þú ert gott skáld en ert samt skáld
því þú ert jafn misskilið skáld og þú ert skilið skáld
Ekki af því þú getur ekki gert neitt annað
en samt þarftu að vera skáld og hvað ert þú að gaspra, skáld!

Þú ert skáld af því að það er eitthvað að þér
og þú ert með minnimáttarkennd, skáld
Og þegar aðrir áttu úlpu og takkaskó
þá var þín æska: draumar að degi til
Samt ertu, skáld, montnari en hanagal að nóttu
eins og fyrirburi spýttur útúr klofinu

Og montið, skáld,
mun drepa þig
samt er það þinn hnífur og gaffall
þín Campbell's-súpa og allt hitt sem rúmast ekki í dós

Þú andar, skáld, og kallar það orð
sem aðrir kalla hóstakast og líta undan

Þú kannt ekki að lesa, skáld
Þú þjáist af athyglisröskun
Hjá þér heitir það „að skálda í eyðurnar“
sem fyrir öðrum er bara hvítt
ekki einu sinni snjór, postulín, sakleysi, dauði,
heldur bara hvítt
ekki einu sinni pappír

Ég heyri ekki í þér, skáld,
kyngdirðu rifrildi úr bók?
Sagðistu hafa verið jórturdýr í fyrra lífi
og borðað orð?
- Heidi fjarðarbarn - önug og gömul, núna
gift lögum og reglu, hvæsir eins og heiðagæs
segir að þetta sé bara gömul tugga
og tilgerð milli „gæsalappa“

En líttu upp, skáld!
Blicken i skyn, nu var det levat
Whysky og renat
Skål skål skål
Þú borðaðir í alvörunni orðin
ekki satt, satt?

Fórstu þess vegna til Ísafjarðar, skáld?
Var ekki erfitt að bera sig með reisn
svona hokinn úti eins og undir súð?
Eru fjöllin eins og wok-panna
og þú í dalnum eins og olíusteiktar núðlur?
Hvers vegna stendurðu ekki í lappirnar, skáld?

Eða eru kannski fjöllin sköp?
Hryggurinn hér vestur og austur
Kúptar hendur, nei, skapabarmar, þeir ytri
og þú reikar um
baktería í súrum legi
sérræktuð flóra við snípinn

Og af hverju varstu alltaf að kvengera
hóla og hæðir, skáld?
Var það út af því að þú vildir deyja og fara heim?
Eða viltu kannski
þú montna skáld
geta ný afkvæmi
sjálfan þig, skáld, eina ferðina enn?  
Valur Brynjar Antonsson
1976 - ...
Úr bókinni Ofurmennisþrá - milli punkts og stjarna. Nýhil, 2004.
Allur réttur áskilinn höfundi.


Ljóð eftir Val Brynjar Antonsson

Dansandi afrit
27 skáld