bláar stelpur
bláar stelpur eru yndi mitt
með blátt hár og bláar hendur

þær skilja mig eftir
þær taka mig með

þær stinga uppí mig brjóstsykri
og banna mér að hreyfa mig þangað til þær koma aftur

ég er nakin
í hvítu herbergi
og inní mér tifar eitthvað

þær koma aftur og draga prikið með brjóstsykrinum útúr mér
nú má ég hreyfa mig

ég hreyfi mig

þær þvo hendur sínar tilað lita þær uppá nýtt

hvenær er dagurinn búinn, spyr ég því það er svo bjart
en þó þær liti margt blátt tekst þeim ekki að sjá við himninum:

þegar dimmir leysast þær uppí dökk fljúgandi korn
sem um síðir leggjast eins og lausofið lak
yfir klæðlausan líkama minn  
Kristín Ómarsdóttir
1962 - ...
Úr bókinni Lokaðu augunum og hugsaðu um mig.
Mál og menning, 1998.
Allur réttur áskilinn höfundi.


Ljóð eftir Kristínu Ómarsdóttur

3 morgnar í röð
bláar stelpur