Sjálfum mér
Stundum velti ég mér upp úr sjálfum mér, þar til ég smelli mér á heita pönnuna og fæ ósmekklega brúna skorpu á mig.
Kemst þess vegna ekki að innihaldinu
án þess að fá óbeit á sjálfum mér.
Feit og brunnin skorpan íþyngir mér
og ég gleymi sjálfum mér.

Stundum eru blómin litríkari, tónlistin fegurri
og loftið ferskara mín megin.
Ég finn vindinn í bakið og kraft í hverju skrefi,
hvert orð svo velvalið og aldrei neinn efi.
Þá kemur að því að ég fer að velta mér upp úr sjálfum mér
og enda á því að skella mér á heita pönnuna,
þú kannast við lyktina.

En nú er ég hér með þér.
Þú sem aldrei gleymir mér.
Þá man ég mig og þú finnur mig, koma til.
Til þín.  
Skrolli
1980 - ...


Ljóð eftir Skrolla

Sjálfum mér