Töfrabragð heimsveldisins
Heimurinn er betri.
Heimurinn er betri án Saddam Husseins.
Hann hvarf í opinni eyðimörk einsog augasteinn herforingja í sandstormi. Ekkert gerðist. Enginn var drepinn. Engu var logið. Olíulindir heimsins brunnu ekki. Börn létu ekki lífið. Hundruð þúsunda ódauðra eiginmanna hvíla hjá konum sínum. Írak er ekki sandgröf.

Hann hvarf niðrí holu einsog eitursnákur inn í hring eigin snöru. Kurteisi þjóðmorðinginn. Hókus pókus. Herti að hálsi hans naðra, alin við brjóst hans sjálfs.

Heimurinn er betri án Georg Bush.
‘Frá því þeir ákváðu að láta Bush hverfa þangað til hann varð hengdur, gerðist ekkert. Vinir hans þjáðust ekki, kona hans grét ekki, börn hans söknuðu hans ekki.’

Heimurinn er betri án Georg Bush.

Í dag sá ég verkamenn í atvinnuleit. Þeir marseruðu einsog misheppnuð herganga inn í sprengjuregn. Sundurtættir líkamar þeyttust í mót óendanlegu óréttlæti. Vonbiðlar þurrkaðir út einsog gulleit sandkorn af stefnuskrá nýrrar aldar. Stráðir hvítu dufti hurfu þeir niðrí svartar grafir.

Og heimurinn varð betri.

Heyrirðu öskur fangelsislausu fanganna? Hæddir af rýtingum sem hanga í lausu lofti. Aldrei hlekkjaðir. Aldrei kaffærðir. Múrveggirnir hundar sem glefsa í nóttina. Huldumennirnir hverfa með næstu vél inn í paradís sem pyntar úr líkamanum sálina.

Ameríka.
Heimurinn hefur batnað.

Heimurinn er betri án Davíðs Oddssonar.
Ef það er satt,
á hann þá að deyja?

Heimurinn er betri án Davíðs.
Spurðu fangann.
Spurðu verkamennina.
Spurðu barnið.

Spurðu heiminn sem hefur batnað:
Dó Saddam einn?
Snaraði kúrekinn hann sjálfur?
Dó enginn á leiðinni að aftökustaðnum?

Rúmaði aftökupallurinn einungis einn mann og böðul hans?
Ég veit að þá hann féll niðrum hlerann niðrí botnlaust síki, hitti hann fyrir þjóð sína. Lausnari hennar skimandi meðal æðaberra flóttamanna eftir síðasta blóðdropanum á feigðarvélina.

Heimurinn er betri án Halldórs Ásgrímssonar.
Ef það er satt,
erum við þá réttlát?

Heimurinn er betri án barna, án fólks, án ástar.

Heimurinn er betri án okkar allra.

Töframenn ráða himinhvolfunum. Öll erum við hverfandi fangar og heimurinn er betri. Hókus pókus. Saddam dó. Ekkert gerðist – hlustaðu vel! Ekkert!

(P.S: The world is better without Tony Blair. Tony! Do us favor. Disappear).

 
halkion
1967 - ...


Ljóð eftir halkion

Töfrabragð heimsveldisins