Eg sé þig
Eg sé þig, Guð, í sólargeisla ljóma,
eg sé þig, Guð, er stjörnubirtan skín,
eg sé þig, Guð, í bikar vorsins blóma,
í bládögg hverri lýsir dýrðin þín.
Eg sé þig, Guð, í silfurskærum bárum,
eg sé þig, Guð, í kristalstærri lind,
eg sé þig, Guð, í sorgardjúpum tárum,
og sál mín geymir ljós frá þinni mynd.

Og rödd þín, Guð, sem bergmálsómur blíður
mér berst að eyrum, friðarmild og skær,
er himinblærinn hlýtt um vanga líður
og hafsins bylgja létt við ströndu hlær,
er ómar fuglinn út um geiminn bjarta,
og ungbarn hjalar vögguljóðin sín.
En innst og dýpst í helgri kyrrð míns hjarta
eg heyri ljúfust kærleiksorðin þín.
 
Halla Loftsdóttir


Ljóð eftir Höllu Loftsdóttur

Eg sé þig