Kveðja
<div style="width:350" align="justify">Þegar ég var lítil átti ég dúkku. Þetta var falleg dúkka í bláum kjól með ljóst liðað hár. Í hárinu voru tvær himinbláar spennur. Ég söng fyrir dúkkuna: Dansi, dansi dúkka mín, dæmalaust er kjóllinn fínn... Núna heyri ég öðru hverju þetta lag og hugsa til þess tíma þegar heimurinn snérist aðeins um þessa dúkku, í litla bleika herberginu mínu uppi á lofti. Þá var ég áhyggjulaus yfir að nokkuð slæmt gæti hent mér og sannfærð um að það væri gott í öllum. Smám saman rann svo upp fyrir mér hvert eðli mannsins er, það er vont vont vont.
          Dag einn var bláu spennunum stolið. Það var eftir heimsókn eldri leikskólasystra sem vildu sjá fallegu dúkkuna, sem hafði gimsteina spennur! Ég fattaði ekki að spennurnar væru horfnar fyrr en vinkonurnar voru farnar. Mér varð þungt fyrir brjósti og fór að svíða í maganum þegar ég áttaði mig á því að stelpurnar hefðu komið undir fölskum forsendum. Dúkkan var ekki söm eftir þetta. Í hvert sinn sem ég horfði á hana mundi ég eftir því, að eitt sinn hafði hún fallegar spennur í hárinu. Síðan hef ég oft hitt þessar stelpur. Þær heita bara öðrum nöfnum og líta öðruvísi út en við fyrstu kynni. En alltaf bera þær sömu kveðjuna.</div>  
akg
1978 - ...
Áður óútgefið.
2002.
Allur réttur áskilinn höfundi.


Ljóð eftir akg

Kveðja