Andartök upplifunarinnar
Þegar rykkornið svífur í geislum sólarinnar
ber rykkornið með sér áður óséðan glampa
En úr augum svefngengilsins, sem felur sig í kjallara eymdarinnar
er skínandi rykkornið gagnlaust, óséð

En úr hæstu hæðum alheimsins
og undir yfirborði sjálfs þíns, í þínum innsta kjarna
fylgist hið sívökula auga gaumgæfilega með
og tekur eftir orsökum og afleiðingum meinsins

Skínandi rykkornið endurspeglar tengsl allra hluta
Það sést ekki eitt og sér, en það sést í geislum sólarinnar
Samband rykkornsins og sólarinnar varpar frá sér dýrmætri sjón
En rykkornið sést þó ekki neitt, ef enginn áhorfandi er

Vaknaðu vaknaðu!
Sagði hið sívökula auga við firrtan huga áhorfandans
"Sjáðu það sem er, ekki það sem verður"
Einlægt hjartað tók undir og hvatti hann áfram

"Sérðu ekki hvað allt er fallegt?
Tekur þú eftir því hvernig þér líður, núna?
Fylgstu með sjálfum þér, umhverfinu og augnablikinu
Geturu fundið í þér kjark til að breyta til,
svo við getum öll lifað í sátt og samlyndi,
ég, þú, hjarta þitt og allt þar um kring".

"Lifir þú í faldri þjáningu,
þá lifir þú í blekkingu við sjálfan þig
Lifir þú gegn samvisku þinni
Sérð þú aldrei rykkornið
né hinn undurfagra glampa sem það með sér ber
Glampann sem endurspeglar allt það sem er"
 
Davíð
1987 - ...


Ljóð eftir Davíð

Andartök upplifunarinnar
Lífsins þraut