Milton og Galileo
Galileo
situr og skynjar
nálægð hins unga
Miltons
gegnum
líflaust
myrkrið.

Fyrir utan gluggann
hringja
kirkjuklukkurnar
Í Flórens.

Hlátur ungrar stúlku
hljómar úr næstu götu
og skellir frá hestshófum
berast með blænum.

Eitt andartak sortnar
Milton fyrir augum
og hann horfir
blindur
fram fyrir sig.

Galileo
snertir sjónaukann
og segir:
Tungl Júpíters
snúast ekki í kringum
jörðina og ekki
í kringum sólina,
heldur í kringum
Júpíter sjálfan
sem sýnir að
heimsmynd okkar
er röng...

Jörðinni er varpað
úr móðurlífi
sköpunarinnar
út í ískalt tómið...

Milton andar
djúpt er
hann fær sjónina
aftur.

Hann sér eldglæringar
og skuggamyndir
bak við
augnlokin
og hugsar um
eldinn sem brennur
án birtu
í heimi þeirra
sem eru fallnir
úr Paradís.
 
Ingibjorg Elsa Bjornsdottir
1966 - ...


Ljóð eftir Ingibjorgu Elsu Bjornsdottur

Milton og Galileo
Síðasti þríbrotinn
Heimskautafarinn