Vatnið er til þess að ganga á
Hver fær lýst furðu manna ...

Vatnið er til þess að ganga á!
Þurrum fótum,
öruggum skrefum ...

Eins og ljós yfir höfnina,
andblær um trjálaufið,
stjarna yfir himininn

barn heim í kvöldmatinn
með mömmu og Mána,
Sunnu og systu ...

Sólin gengur á vatninu
í gulum sandölum,
þurrum, öruggum skrefum,
tiplar rjóð yfir tjörnina,
smellir kossi
á gamlan forarpoll
efst í Norðurgötu.

Hann sér hana ekki;
augu hans brostin,
löngu læst
af blýi og grómi,
rusli og hrákum.

Hún kyssir hann
hlýlega á hroðann:
?Komdu nú með!?
En hann sér ekki, blindur,
en skynjar samt sindur:

?Æ, hlýja vina,
gefðu mér vatn,
mig þyrstir,
þyrstir í hafið
og hreinsandi saltið.
Enginn, alls enginn grætur
í mig svo ég geti séð.?

Sólin rjóð eftir leiki dagsins,
rauður bolti
í ljómandi höndum himinsins,
sólrauður bolti
í fumlausum bláhöndum himinsins.

Hún kyssir hann aftur:
?Æ, vesalings gamli pollur,
senn muntu gufa upp,
hverfa upp í skýin,
veltast og kitlast
og hreinsast og hreinsast
og svífa yfir jörðu
á tærbláum himni

og rigna svo aftur
á tárbláa jörð,
tær, nýr og ferskur
í augu barnanna,
kúnna og blómanna,
í augu vatnanna.?

Hver fær lýst furðu vísindamanna?

Vatnið er til þess að ganga á!
Þurrum fótum,
öruggum skrefum.

Rafvolgt sjónvarpið trúir því ekki
en maðurinn þráir Guð.
Tölvurnar glotta
en manninn þyrstir í ást.

Afskræmt af elsku
reikar fíflið um borgina,
dreifir samúð í allar áttir
en fólkið hæðist að:

?Bjargaðu sjálfum þér, bjáni!
Til hvers að ganga á vatni
þegar nóg er um gangstéttir??

Uns fíflið gengur í sjóinn
til að hverfa til fulls köldum heimi
- en þú réttir mér höndina
og dregur mig upp úr vatninu
og dregur mig upp á vatnið,
segir: ?Komdu upp á vatnið"
og við stöndum á vatninu.
Ég stama forviða: "Við stö-stöndum á vatninu!?

Hver fær lýst furðu manna?

Í dropatali leka bílarnir
úr Mjóstrætinu
út í lækinn sem murrar við Geirsbúð
og rennur í marglitum bílum
hraðar og hraðar
út í umferðarflauminn
hraðar og hraðar
í Sæbrautarána
út í Kringlumýrarelfuna,
hraðar og hraðar og hraðar
í Reykjanesbeljandann;
komast að ósnum
hverfa í hafið
og þögnina ...

Hver bíll dropi
gulur, rauður, grænn eða blár
dropi, hjúpur, himna
um lítinn dropastjóra,
æstan, sveittan, rennblautan
af æsingi
yfir umferðarflaumnum
og dropanum á undan:

?Blauti bjáninn,
kemst hann ekki örlítið
hraðar,
hraðar og hraðar,
hraðar, hraðar, hraðar?
Fer hann ekki að gufa upp
og líka ég, og rigna
rigna
r
i
g
n
a
heim
í Mjóstræti??

Hver fær lýst furðu manna,
ómældri og ómælanlegri furðu
vísindamanna, töframanna?

Ný halastjarna á leið til jarðar
úr djúpgeimnum dimma ...
Þeir sáu hana nálgast í kíkjunum,
glerstóru augunum.

?Nýtt ljós á himni
og þó ekki alveg: kom fyrir 2000 árum
ef marka má útreikninga
- skrítið: það eru engar heimildir ...?

Þeir sáu hana stækka í kíkjunum
og fólkið leit hana birtast um síðir
milli LJóns og Tvíbura,
beint úr Jötu Krabbans -
Sjá, hún nálgaðist, stækkaði,
ljómaði skærar og skærar ...

Hver fær lýst furðunni:
Stjarnan var MAÐUR
á geislandi reiðhjóli!
- tunglsljós á luktinni
og sindraði stjörnum af teinunum.

Hann lenti á Times Square
á ljómandi reiðstjörnuhjóli,
íklæddur bragandi Norðurljósum
og hjálmur hans geislandi sól.

Hann lenti á torginu
innan um þúsundir manna
sem biðu, og mannkyni horfði á
í sjónvarpinu í stofunni heima
og hélt niðri í sér andanum,

sá hann taka af sér sólina
líta kringum sig haukmildum augum
og mannkynið steinþagði
en hann sagði
himneskum rómi:

?Ó, Jarðarbörn, synir og dætur Himinsins,
ég færi ykkur hvatningu og kærleika
frá Lifandi Föðurnum Eina
- verið góðu börnin nokkur ár enn,
aðeins nokkur ár enn,
og þá verðið þið alltaf góð ...?

Þeir settu hann í búr
gláptu á hann daga og nætur,
mældu og reiknuðu,
tóku sýni og sáu ekki neitt,
spurðu aftur og aftur
alls sem þeim datt í hug
en hann svaraði alltaf því sama:

?Vatnið er til þess að ganga á,
himinninn til að hjóla á,
hoppsá og skoppsá,
velta sér kollhnís á,
syngjá og dansá,
fara í höfrungaleik á.

Og jörðin, jörðin
er til þess að elska á

jörðin er til þess
að elska á

jörðin er til þess að elska

maðurinn
manninn.

Hann þyrstir.?

HANN ÞYRSTIR!  
Ísak Harðarson
1956 - ...
Úr bókinni <a href="http://edda.is/?pid=456" target="new">Hjörturinn skiptir um dvalarstað</a>.
Forlagið, 2002.
Allur réttur áskilinn höfundi.


Ljóð eftir Ísak Harðarson

Stjörnur yfir Stokkseyri
Ísafold úr greipum dauðans
Vatnið er til þess að ganga á