(Ónefnt)
Allir sem búa við sjó vita að maður stingur sér ekki til
sunds með fullan maga.
Ég bý við sjó. Við búum öll við sjó.
Ég erfði net, ég erfði bát, erfði fát. Ég erfði árar, erfði
ára. Ég erfði stígvél og galla, ég erfði ausu og öngul.
Erfði dall. Erfði kvóta. Ég erfði hyldýpi og ótta.

Allir sem búa við sjó vita að maður kveikir ekki í
sígarettu með kertaloga.
Ég bý við sjó. Við búum öll við sjó.
Ég erfði ógn, ég erfði hræðslu, erfði ugg. Ég erfði
innræti, erfði læti. Ég erfði kuta og kompás með
fastsettri stefnu. Ég erfði flóð og fjöru, talíu og spotta.

Allir sem búa við sjó vita að hænur eru sólgnar í þara.
Ég bý við sjó. Við búum öll við sjó.
Ég erfði söl, ég erfði þang, erfði hungur. Ég erfði
krækling, salt og sand. Ég erfði krabba og fló. Egg,
fjaðrir, bringu og silkibleika húfu. Ég erfði matarkistu
sem ég get ekki opnað.  
Heiðrún Ólafsdóttir
1971 - ...
Ljóðið er úr bókinni Ég erfði dimman skóg, sem er, eins og fram kemur á vef Bókmenntaborgarinnar: „Ljóðverk, afrakstur tilraunastofu sjö kvenna sem vinna með skáldaða texta um arf kvenna, erfðasynd, rætur og kynslóðir. Ljóðið Madrigal eftir Tomas Tranströmer hefur hér orðið uppspretta könnunarleiðangurs um innri skóga. Sjö raddir verða að einni. Ein rödd splundrast í margar á leið sinni um árhringi.“

Í skáldasamsteypunni Skóginum eru: Guðrún Inga Ragnarsdóttir, Halla Margrét Jóhannesdóttir, Heiðrún Ólafsdóttir, Hrafnhildur Þórhallsdóttir, Sigurlín Bjarney Gísladóttir, Soffía Bjarnadóttir og Æsa Strand Viðarsdóttir.


Ljóð eftir Heiðrúnu Ólafsdóttur

(Ónefnt)