Hugarvald
krepptir hnefar
hiti í brjósti
grimmt ofbeldi
yfirtekur veldið
veldi hugveraldar

veikburða kóngi
vísast er að forða
forða frá borði

drekar fortíðar
riddarar framtíðar
kljást um hásæti
sálarmættis

hjartað þakið ís
varið gegn logunum
hugur mótast
myndar þétt efni

þungbúið grjót
klæðist salti
í þeirri von
að fylla í eyðurnar

tómleikinn sem þenur
út vængi sína
innan veggja næturinnar

svartur hrafninn
hverfur inn í myrkrið
flögrar um hyldýpi
neindarinnar

órar hvergi
að utan steinveggja
breiðir úr sér
hlý sólarupprásin

þiðnar hjarta
ár renna á ný
gegnum ríkidæmi
hugans

nýr konungur
situr í öndvegi
tilverunnar  
Hrannar Ingi Arnarsson
2002 - ...


Ljóð eftir Hrannar Inga Arnarsson

Hugarvald