Nekt
Hún kemur ekki nakin til dyra.
Föt hennar skýla henni.
Og hvílík föt!
Hvílíkur vefnaður ólíkra þráða!
Það samansafn lita
sem prýðir hana!
Bjallan ómar
líkt og neðansjávar;
gangurinn þekkir svo ólíkt fólk
að einum finnst að sér þrengt
á meðan öðrum líður hvergi betur.
Drengurinn með stúlkutárin
hangir þarna ennþá
í rammanum;
hversu oft varð ég ekki ástfanginn
innan þessara veggja!
Og ennþá elska ég þig
sundurgerð
og þau nöfn sem þú berð.

Þær óteljandi dyr
sem rísa upp af gólfinu,
þögnin sem vaknar
við að klút er brugðið um hálsinn,
augun sem mætast
á leið sem þau þekkja ekki.
Það er hér sem hún
- svo nýflutt inn
og svo ný í augum nágranna -
vaknar eina nótt
-eins og glitrandi
hafflötur gárist -
og yfirgefur rúm sitt
til að ná sér í náttslopp
inni í stofu.  
Bragi Ólafsson
1962 - ...
Úr bókinni Ytri höfnin.
Bjartur, 1993.
Allur réttur áskilinn höfundi.


Ljóð eftir Braga Ólafsson

Nekt
Frá heimsþingi esperantista
Möl