Lífsstríð og lífsfró
Ég leitaði' um fold og sveif yfir sæ,
því að sál mín var hungruð í brauð,´
en ég gat ekki neins staðar gulli því náð,
sem oss gefur þann lifandi auð.

Og svo varð ég uppgefinn, sál mín svo sjúk,
að hún sá ekki líkn eða fró,
því allt traust á mér sjálfum með trúnni var burt,
og af tapinu sorglega dró.

En þá var það eitt sinn á ólundarstund,
að ég eigraði dapur á sveim;
og ég reikaði hljóður um víðlendisvang,
því ég vildi' ekki í tómleikann heim.

Þá heyrðist mér rétt eins og hvíslaði rödd,
svo að hjarta mitt greiðara sló:
"Ef þú horfir með ólund á himin og jörð,
þá hlýtur þú aldregi ró!"

Þá leit ég í kringum mig, loftið var allt
ein logandi kveldroðaglóð,
meðan sólin mér heyrðist við sæflötinn yzt
vera' að syngja mér óminnisljóð.

Og fuglarnir, lyngið og lækir og grjót
og lömbin og fjöllin og hjarn
fékk aftur sinn heilaga samelskusvip,
og ég sjálfur? - Ég lék eins og barn!  
Matthías Jochumsson
1835 - 1920


Ljóð eftir Matthías Jochumsson

Minn friður
Lífsstríð og lífsfró
Eggert Ólafsson
Jólin 1891
Hvað boðar nýárs blessuð sól?
Fögur er foldin
Ó, faðir, gjör mig lítið ljós
Ég fel í forsjá þína
Á jólum
Lofsöngur
Börnin frá Hvammkoti
Minni kvenna
Íslensk tunga
Volaða land
Bjargið alda