Höfuðlausn
1.
Vestur fór ég of ver,
en ég Viðris ber
munstrandar mar,
svo er mitt of far;
dró ég eik á flot
við ísa brot,
Hlóð ég mærðar hlut
míns knarrar skut.

2.
Buðumk hilmir löð,
þar á ég hróðrar kvöð,
ber ég Óðins mjöð
á Engla bjöð;
lofað vísa vann,
víst mæri ég þann;
hljóðs biðjum hann,
því at hróðr of fann.

3.
Hygg, vísi, að
vel sómir það,
hve ég þylja fet,
ef ég þögn of get;
flestr maðr of frá,
hvat fylkir vá,
en Viðrir sá,
hvar valr of lá.

4.
Óx hjörva glöm
við hlífar þröm,
gunnr óx of gram,
gramr sótti fram.
Þar heyrðist þá,
þaut mækis á,
málmhríðar spá;
sú var mest of lá.

5.
Varat villr staðar
vefr darraðar
fyr grams glöðum
geirvangs röðum.
Þá er í blóði
í brimils móði
völlr of þrumdi
und véum glumdi.

6.
Hné fólk á fit
við fleina hnit.
Orðstír of gat
Eiríkr of þat.

7.
Fremr mun ég segja
ef firar þegja.
Frágum fleira
til frama þeira.
Æstust undir
við Jöfurs fundi.
Brustu brandar
við blárrar randar.

8.
Hlam heimsöðul
við hjálmröðul.
Beit bengrefill,
það var blóðrefill.
Frá ég að felli
fyr fetilsvelli
Óðins eiki
í járnleiki.

9.
Þar var eggja at
og odda gnat.
Orðstír of gat
Eiríkr of þat.

10.
Rauð hilmir hjör.
Þar var hrafna gjör.
Fleinn sótti fjör.
Flugu dreyrug spjör.
Ól flagðs gota
fárbjóðr Skota.
Trað nift Nara
náttverð ara.

11.
Flugu hjaldrs tranar
á hræs lanar.
Vorut blóðs vanar
benmás granar.
Sleit und freki
en oddbreki
gnúði hrafni
á höfuðstafni.

12.
Kom gríðar læ
á Gjálpar skæ.
Bauð úlfum hræ
Eiríkr of sæ.

13.
Lætr snót saka
sverð-Frey vaka
en skers Haka
skíðgarð braka.
Brustu broddar
en bitu oddar.
Báru hörvar
af bogum örvar.

14.
Beit fleinn floginn.
Þá var friðr loginn.
Var álmr dreginn.
Því varð úlfr feginn.
Stóðst fólkhagi
við fjörlagi.
Gall ýbogi
að eggtogi.


15.
Jöfur sveigði ý.
Flugu unda bý.
Bauð úlfum hræ
Eiríkr of sæ.

16.
Enn mun ég vilja
fyr verum skilja
skapleik skata.
Skal mærð hvata.
Verpr ár bröndum
en jöfur löndum
heldr hornklofa.
Hann er næst lofa.


17.
Brýtr bógvita
bjóðr hrammþvita.
Muna hodd-dofa
hringbrjótr lofa.
Mjög er honum föl
haukstrandar möl.
Glaðar flotna fjöl
við Fróða mjöl.

18.
Verpr broddfleti
af baugseti
hjörleiks hvati.
Hann er baugskati.
Þróast hér sem hvar,
hugað mæli ég þar,
frétt er austr um mar,
Eiríks of far.

19.
Jöfur hyggi at
hve ég yrkja fat.
Gott þykjumk þat
er ég þögn of gat.
Hrærði ég munni
af munar grunni
Óðins ægi
of jöru fægi.

20.
Bar ég Þengils lof
á þagnar rof.
Kann ég mála mjöt
um manna sjöt.
Úr hlátra ham
hróðr ber ég fyr gram.
Svo fór það fram
að flestr of nam.

 
Egill Skalla-Grímsson
910 - 990
Höfuðlausn er ásamt Sonatorreki þekktasta kvæði Egils, en það orti hann á einni nóttu í Jórvík að áeggjan Arinbjarnar vinar síns til að freista þess að kaupa sér líf af Eiríki blóðöx. Voru slík kvæði ekki óþekkt. Er Höfuðlausn lofkvæði um Eirík konung, ort með runhendum hætti og er þar að finna fyrsta dæmi um endarím í íslenskum bókmenntum. Hafa menn leitt að því getum að endaríminu hafi Egill kynnst á Englandi þar sem slíkt tíðkaðist.


Ljóð eftir Egil Skalla-Grímsson

Sonatorrek
Höfuðlausn
Þat mælti mín móðir