Litla stúlkan með ljósa hárið
Segðu mér söguna aftur
- söguna þá í gær -
um litlu stúlkuna með ljúfu augun
og ljósu flétturnar tvær.

Var hún ekki fædd úti á Íslandi,
og alin þar upp á sveit,
og send hingað vestur á sveitarinnar fé
- með saknaðartárin heit?
Hún var þrettán ára eða þar um bil.
- Jú, það voru þín orð.
Þú sagðir, að sárt hefði hún grátið,
er settu þeir hana um borð.
Og þá gusurnar gengu yfir skipið,
sem gnötraði og veltist á hlið,
þá bað hún svo vel, og þá bað hún svo heitt:
„Æ, blessaðir snúið þið við!“
Aumingja barn! Það var ósköp sárt!
En átakanlegra var hitt,
þegar vestur hún kom til Winnipeg
og vildi sjá skyldfólkið sitt,
að fólkið hennar var farið
- hún fann það ekki þar.
Þú sagðir, að þér hefði runnið til rifja,
hve raunaleg hún var
í innflytjendasalnum, er sat hún svo
sakleysisleg og hljóð,
og reyndi að hylja með hyrnunni sinni
hið heita táraflóð.

Var kyn þó væri hún döpur?
Og víst var það nokkuð hart,
að segja við hana: „Hættu að hrína!
- Hestarnir koma nú snart. -
Með karlinum keyrir þú út á land
og kemst þar í góða vist.
Skældu ekki meira! - Skárra er það! -
Ég skal nú verða byrst!“

Svo fór hún einhverja langa leið
út á land. - Eða var ekki svo?
Og fremur gott var fólkið við hana
fyrstu dagana tvo.
En svo þrutu gæðin meir og meir,
og margsinnis var það hún grét,
þá kerlingin kreppti hnefann
og karlhrófið fólslega lét.
Þau börðu hana, trúi ég, svo bólgin hún var,
og blæddi undan svipunni þrátt;
Þau létu hana vinna, þó væri hún sjúk
- já, vinna allt stórt og smátt.
Henni leiddist svo mjög, hana langaði heim.
Já, láttu mig heyra um það,
þegar hún tók til þess barnslega bragðs,
að búast um nótt af stað.
Hún komst út um gluggann með kistilinn sinn,
- en koldimm var nóttin og löng -
svo hljóp hún til skógar, eins hart og hún gat.
- Hún hræddist ei myrkviðargöng.

Hún þekkti enga leið, eins og vonlegt var.
Hún villtist. Hún missti þrótt.
Og hver getur sagt hvert hún lenti,
eða hvað hún leið þá nótt?
En líklegast hefur hún lagt sig til svefns,
þá lúin hún orðin var,
og ef til vill aldrei vaknað
- já, andast í skóginum þar.
Já, hver getur sagt, hvaða þrautir hún leið,
eða hvernig hún lífinu sleit?
Oft hefur verið að því spurt,
en enginn maður það veit.

Æ, segðu mér söguna aftur
- söguna þá í gær -
um litlu stúlkuna með ljúfu augun
og ljósu flétturnar tvær.
 
Jóhann Magnús Bjarnason
1866 - 1945


Ljóð eftir Jóhann Magnús Bjarnason

Litla stúlkan með ljósa hárið