Ragnhildur
Ástin bægir öllu frá,
enda dauðans vetri,
af því tíminn er þér hjá
eilífðinni betri.

Ástin þín er ekki dyggð,
ekki skylda heldur,
hún er ekki heldur tryggð,
hún er bara eldur.

Þegar ég hef þreytta lund
og þoli stundum ekki við,
kemur þú með mjúka mund,
mýkir sár og gefur frið.

Minnisstæð er myndin þín
mér á nótt og degi.
Hún er eina unun mín
á ævilöngum vegi.
 
Páll Ólafsson
1827 - 1905
,,Páll missti Þórunni konu sína eftir nálega aldarfjórðungs sambúð. Ekki hugði hann á einlífi, enda lítt til þess hneigður. Hann giftist í annað sinn nokkrum mánuðum eftir lát Þórunnar, ungri konu, Ragnhildi, dóttur Björns Skúlasonar á Eyjólfsstöðum.... Orti Páll meira lof um Ragnhildi konu sína heldur en nokkurt annað íslenskt skáld fyrr eða síðar.." Jónas Jónsson - Saga Íslendinga bls. 262.


Ljóð eftir Pál Ólafsson

Lausavísur
Ég vildi feginn verða að ljósum degi
Þögul Nóttin
Án titils
Ragnhildur
Lóan er komin
Haustið
Fangelsi
Lífs er orðinn lekur knör
Sumarkveðja
Tíminn