Ferja og farþegi
(ferja)

himinninn vekur mig
með höggi
milli augnanna

*

himinninn vekur mig
enginn máni
engar stjörnur vísa mér veginn
hálfopnar dyr
nálgast mig

*

himinninn vekur mig
á ferjunni
hún snýr í hafnarmynninu
skugginn af höfði mínu
fer um salinn
andlit af andliti
uns stefnan er tekin suður
að hann staðnæmist á manninum
andspænis mér
og við siglum aftur á bak
til borgarinnar
frá borginni

*

himinninn vakti mig
um kvöld á þilfarinu
fjöllin voru gegnsæ og hafið slétt
ekki eins og núna

(og farþegi)

 
Sjón
1962 - ...
Úr bókinni ég man ekki eitthvað um skýin.
Mál og menning, 1991.
Allur réttur áskilinn höfundi.

Sigurjón B. Sigurðsson, öðru nafni
Sjón, hefur gefið út fjölmargar
ljóðabækur, auk skáldsagnanna
Augu þín sáu mig og Með titrandi tár.
Hann hefur þar að auki samið fjölmarga
söngtexta fyrir stórstjörnuna Björk.

Sjón yrkir öllu jöfnu fremur
súrrealísk ljóð.



Ljóð eftir Sjón

Augu og augu
Ferja og farþegi