Klak

Vélin hemur sig aldrei
en hamast víggirt
ósnertanlegum pólum
segulmagni gæddum
og dregur alla nauðuga viljuga
á hnjánum
í banvæna sjálfheldu.

Sem hvati alls
og uppruni eðlishöfundur
langt í frá hlutlaus
víar hún okkur aumum
í gapið gleiða
búnum brestgjörnum skurni
næringarsnauðum eggjum
í milljóna tali
og afföll eigi ómikil.

Sú náttúrulega rýrnun
og vannæring
knýr áfram vélina
og sjálfseyðing
óafstýranleg í víginu
mót óbugandi endi alheimsins.

Hljóðlaus brestur klaksins
dreifir sér
og mengar andrúmsloftið
og ærir allt kvikt
með fjarveru sinni og þögn.

Drottnunin er sjálfsögð
og lofuð af heiglum
sem vafið hafa festina um háls sér
og hanga bjargarlausir yfir botnleysinu.

 
Ófeigur Sigurðsson
1975 - ...


Ljóð eftir Ófeig Sigurðsson

Klak