Töfrasproti
Í morgunsárið er listakonan ein á gangi í skógræktinni meðan kallarnir sem vinna í verksmiðjunni tínast af næturvakt út úr blárri rútu og inn í húsin sín þar sem ungar og gamlar konur sofa með sjálfshjálparbækur og rómana á náttborðum. Hún er í rauðum síðkjól og pilsið þyrlast um fætur hennar þegar hún gengur yfir trébrúna við tjörnina og hugsar hvernig það væri að vera ein af þessum konum sem enn sofa í heitu rúmi meðan mennirnir þeirra hátta sig hljóðlega og skríða svo undir næturilmandi sængina. Svo hristir hún þessar hugsanir af sér vitandi að það myndi ekki henta henni – hún er bara ekki svoleiðis kona. Eftir litla stund kemur hún að bekk við tjörnina en þegar hún ætlar að setjast rekur hún augun í visna trjágrein sem liggur þarna og fær allt í einu þá flugu í höfuðið að þetta sé töfrasproti. Í honum búi einn og aðeins einn galdur og hún þarf ekkert að hugsa sig um áður en hún sveiflar sprotanum.  
Anna Lára Steindal
1970 - ...


Ljóð eftir Önnu Láru Steindal

Árstíð
Espadrillur
Harmónikka
Nekt
Töfrasproti
Ylbrá