Ylbrá
Úti er heitur brennheitur sumarmorgunn en ég hef setið lengi uppi á háalofti að sortera biblíumyndir sem ég fékk í sunnudagaskólanum þegar ég var stelpa. Maðurinn minn hefur smíðað handa mér dálítinn kistill sem er hólfaður niður svo ég get komið skipulagi á myndirnar – eitt hólf fyrir hverja biblíufrásögn. Ég held mest upp á mynd þar sem Jesú reikar einn í Getsemane og haninn galar, líktog til merkis um hina þreföldu afneitun, en Jesú er mildur og rólegur á svipinn einsog ekkert alls ekkert hræðilegt hafi gerst og beygir sig niður til að lykta af lotusblómi. Inn um risgluggann berst ómur frá lifandi bænum og um hádegið klöngrast ég niður tréstigann. Helli mér ístei í bjórmuggu og sest með hana út á svalir. Með höfuðið fullt af tilvistarspurningum en engin svör á reiðum höndum þangað til mér verður litið niður götuna og sé hvernig fjallið bylgjast í ylbrá og gamli presturinn (sem kenndi mér meira en flestir um biblíusögurnar) hverfur á fjallahjóli inn í sumarhitann – glaður með heiminn þó atburðir í veröldinni séu ekki alltaf uppörfandi.  
Anna Lára Steindal
1970 - ...


Ljóð eftir Önnu Láru Steindal

Árstíð
Espadrillur
Harmónikka
Nekt
Töfrasproti
Ylbrá