Vetrarhjartað þiðnar
Vetrarhjartað þiðnar


Ég veit ekki hvort ég held út annað svona sumar. Þetta sumar var of gott. Og ég, ógæfumaðurinn, hugsa til þess með hryllingi ef næsta sumar verður enn betra.

- - -

Nú er haust
og ég bölva sólinni.

Þið hafið séð til mín
standa úti á palli
steyta hnefa til himins.

Ég öskra bölbænir fullum hálsi
því ylur og birta
baða umhverfið

allt er svo fallegt.

Fegurðin bræðir
innviði hjartans.

Þar sem áður
var ís

drýpur nú vatn
svo tært og hreint
að út af brjóstinu
leggur ljósbrot

líkt og af demanti
sem finnur sinn fyrsta dag.

Aðeins regnbogans er saknað.

- - -

Kominn er vetur
snjókorn féll
á veginn.

Haustið sem mildaði skap mitt
er horfið.

Það sem áður
var gefið frjálst
er aftur tekið að frjósa.

Þegar vorar
mun mér skiljast
að árstíðir
míns innri manns
eru ótengdar þeim ytri.

Og vetrarhjartað þiðnar.
 
Papillon
1973 - ...


Ljóð eftir Papillon

Vetrarhjartað þiðnar
Á landamærum
Dagur og nótt