Ég skil mig ekki - Alltaf hlýt ég unna
Ég skil mig ekki - alltaf hlýt ég unna,
en elskað sömu lengi ég get ei meir;
mér finnst ég þjóta meðal ótal brunna
og mega drekka - en þyrsta alltaf meir.

Því sjái ég mey, og sé hún ung og fögur,
og sé hún ekki járnköld, eða stál,
þá er ég í báli, yrki ótal bögur
og öllu fórna, líkam bæði og sál. -

En þegar víman aftur af mér líður,
ég ætíð finn og glópska mín var stór.
Var hún sú rétta? - nei, og sárt mér svíður,
er sé ég aðra, hvernig þarna fór.

Með nýrri ást svo nýja byrja ég vegi,
en nýtt í vorum heimi eldist fljótt;
svo gengur koll af kolli, dag frá degi,
frá dagsins morgni fram á svarta nótt.

En þó er ég orðinn þreyttur fram úr máta
á þessum leik, því hjarta mitt er kalt,
og margoft hlýt ég sárri gremju að gráta
mitt glópsku líf og þetta ráðlag allt.

Ég hefi elskað aðeins einu sinni,
og elskað þá svo heitt sem nokkur má,
með þeirri glóð, sem brenndi innst mig inni-
nú askan þakin er með klaka og snjá.

En allt, sem bærist innst í sálu minni,
og allt, sem neitar mér um stundar ró,
er þetta: Ég vil elska einu sinni,
bara´ einu sinni til - og þá er nóg.

 
Gestur Pálsson
1852 - 1891


Ljóð eftir Gest Pálsson

Ég skil mig ekki - Alltaf hlýt ég unna
Íslands minni
Ég er þreyttur
Ég
Betlikerlingin