Til Fornrar Vinkonu
Austan enn kemur ávarp til þín,
ástkvinna góð mín,
ástkvinna góð mín og ósk huga fest,
að elski þig drottinn og unni þér bezt....

Látið hefur skaparinn langvegabil
þér frá og þar til,
þér frá og þar til, sem þreyi ég byggðum í,
fundir með ástunum fyrnast af því.

Enn nú er óslokkið um hjarta mitt
ástverka ljós þitt,
ástverka ljós þitt, sem áður fyrri tíð
allfagurt logaði árla og síð....

Faðmar mitt hjartað af fögnuði þig,
farðu svo við mig,
farðu svo við mig, því fulltrúa má
finnumst við snarlega guðs stóli hjá.

Búast vil ég héðan í blessunarstað,
súru hef eg safnað,
súru hef eg safnað á sjö tugum þeim
ára sem eg fékkst við illlyndan heim.

Deild vorra tíma í drottins hendi stár,
það held eg þrjú ár,
það held eg þrjú ár sem þú framar ber
yfir þá tugi sem taldir eru mér.

Sæl vertu guðs gefin gæzku og náð,
efni þitt og allt ráð,
efni þitt og allt ráð, önd þín og fjör,
míns herra mest fáðu miskunnarkjör...

Guði sértu falin, og guð launi bezt
þér fyrir mig mest,
þér fyrir mig mest, mundu hjartanlig,
að mitt hjarta með guði minnist við þig.  
Bjarni Gissurarson
1621 - 1712


Ljóð eftir Bjarna Gissurarson

Til Fornrar Vinkonu
Mangaldur
Noregs fornkóngur frægi