Kvöld
Krýnið mig svefngrasi
salar drauma,
ljúfir ljósálfar!
langar mig að blunda;
ill og ókyr
óróar gríma
mæðir manna sveim
fyrir mold ofan.

Lykja vil ég augum,
líta vil ég þangað,
sem að glaðir ei
geislar deyja,
þar er eygló
ósýnileg
bjarma blundstafi
björtum vefur.

Lykja vil ég augum
fyrir lífi manna,
líða vil ég burtu
frá ljósheimi;
hverfa vil ég huga
inn í hug sjálfan
og með honum heims
hrelling byrgja.

Heilar hugsjónir
himinrunnar!
horfnar horfnum frá
heimsins öldum!
unnt er ei í vöku
yður að halda,
en þér annars heims
óðul byggið.  
Benedikt Gröndal
1826 - 1907


Ljóð eftir Benedikt Gröndal

Staka
Úr Gaman og alvara
Babbi segir
Sæla
Kvöld
Fjarri