Mitt Líf
Ég sit og stari út um glugga.
Útsýni mitt er yfir eimskipasvæðið í aðra áttina en samskipahöfnina í hina.
Ég get líka séð Grafarvoginn.
Það hefur engin komið að heimsækja mig núna í tvo mánuði.
Ætli þau séu búin að gleyma mér?
Í þrjú ár hef ég setið hér við sama gluggann.
Áður var ég fóstra.
Hvernig ætli krakkarnir sem voru á grænudeild líti út í dag?
Þau eru eflaust byrjuð í skóla.
Ég heiti Sigríður Bjarnadóttir.
Ég er búsett á kleppi.
Ég er ógift og á engin börn. Raunar hef ég aldrei verið gift en þó ekki nema sólarhring frá því.
Mér finnst lífinu hafa lokið um leið og það var að byrja.
Ég er lifandi dauð.
Ég horfi út um gluggann.
Sömu hlutirnir aftur og aftur.
Gámarnir á planinu eru 2702.
Ég taldi þá í gær. Ég taldi þá aftur í morgun og aftur, núna.
Skipið kom með 307 gáma í fyrradag en fór aftur með 240.
Það fjölgaði á planinu.
Það fannst mér gaman. Þá gat ég verið lengur að telja.
Ég heiti Sigríður Bjarnadóttir.
Ég er 27 ára í dag og þetta, er mitt líf.
 
Kjartan Örn Sigurðsson
1975 - ...


Ljóð eftir Kjartan Örn Sigurðsson

Mitt Líf
Grikkland að kvöldi
Vopnahlé
Óðar flugur