Enginn sagði neitt.
Allt í einu var hún alls staðar
eins og sólin og grasið.
Í hvert sinn sem ég leit upp sá ég hana
dansandi um flekkinn
við stuttskefta hrífu í of litlum skokk.
Ég þerraði svitann, brýndi ljáinn.
Enginn sagði neitt.
Kunnugleg lyktin af hörundi hennar,
blönduð svita og fíflamjólk,
var orðin að framandi ilmi sem vakti með mér
óskýrar myndir.
Ég brosti og leit svo í grasið,
beit saman tönnum
og um stund varð eðlileg hrynjandi heysláttumannsins
að rykkjóttum sveiflum.
Dagurinn varð lengri og heitari en nokkru sinni fyrr.
Loks héldum við heim á leið og skildum eftir að baki daginn og engið.
Í hvarfi frá bænum í gróinni lautu, rétti ég henni höndina.
Enginn sagði neitt.
Kvöldsólin þakti hár hennar kossum, allir fuglarnir þögnuðu um stund. -
Svo héldum við áfram hljóð upp að bænum. Þar beið móðir sem kyssti hana og mig og tíndi um leið úr hári okkar stráin.