Ég veit ekkert hvað ég ætlaði að segja
Við erum sérstök þjóð!
Við Íslendingar.
Semjum sér íslensk ljóð,
engar ensku blendingar,
nei takk! Við erum góð.

Sko, mamma mín sagði við mig:
Brostu útí heiminn,
víðáttugeiminn.
Gættu að því hvað þú segir,
best væri að þú þegir.
Spurðu alltaf hvað þú megir,
og þá eru þér opnir allir vegir.
Því já, við Íslendingar erum seigir.

Ég lærði ekkert hjá henni mömmu minni,
og heldur ekkert hjá systur þinni!
Í dag segi ég allt sem mér dettur í hug,
engin skömm vinnur á mér bug,
ég er eins og hver annar Íslendingur full af dug.

Aldrei gefa svíni perlu,
og heldur ekki gull og fagran skó.
Kerlingin bakaði karli snúð,
sem hún keypti reyndar í búð.
Ég man ekki alveg alla söguna,
það vantar nefnilega í mig minnisflöguna.
En ég man að þetta var eitthvað í þessa áttina;
Græðgin þó, át allt saman og dó.

Nú man ég reyndar ekkert um hvað ég var að semja,
ætli það felist ekki í mér dulítil gremja.
Mig langar helst ljóð.is að lemja,
en þann ósóma ætla ég ekki að fremja.

Í staðinn ætla ég að ausa yfir ykkur öll mín íslensku ljóð,
og senda það inná þessa slóð.
Því greinilega hef ég ekkert annað að gera,
hef engum til að skemmta og veit ekkert hvar ég á að vera.

Ég bara er, því ég er.
Nei það er reyndar ekki rétt.
Ég er, því mömmu minni og pabba leiddist um vorið,
allt það veður slorið.
En það er bara engin frétt!  
Þórhildur Þórarinsdóttir
1989 - ...
Vá, ég er þreytt...góða nótt


Ljóð eftir Þórhildi Þórarinsdóttur

Íslenska tungan
Ég veit ekkert hvað ég ætlaði að segja