Svanurinn minn syngur
Svanurinn minn syngur.
Sólu ofar hljóma
ljóðin hans og heilla
helgar englasveitir.
Blómin löngu liðin
líf sitt aftur kalla.
Fram úr freðnum gljúfrum
fossar braut sér ryðja.

Svanurinn minn syngur
sól í undirheima.
Kyrrast kaldir vindar.
Kætist allt, sem lifir.
Björgin þungu bifast,
bergin undir taka.
Alein aldan stynur,
afl sitt finnur þverra.

Svanurinn minn syngur
sumarlangan daginn.
Svífur sælli en áður
sól um himinboga.
Ein er þó, sem unni
of heitt til að kætast;
svansins löngu leiðir
laugar hún í tárum.
 
Halla Eyjólfsdóttir frá Laugaból
1866 - 1937


Ljóð eftir Höllu Eyjólfsdóttur frá Laugabóli

Vökudraumur
Svanurinn minn syngur