Íslendingurinn!!


Það er ekkert svo illt að ei megi af því læra
svo elsku vinur nú herða skalt þinn huga.
Láttu ekki kreppu sem allt og alla er að æra
úr þér kraftinn að slíta, því nú er að duga

Eða drepast eins og máltækið segir og sannar
með sögum og hetjudrápum kveðnum til forna.
Ísland með stórjökuls toppa tindrandi fannar
og tryllta vætti sem verndara landsins horna.

Drepsóttir, óveður eigi gátu okkur grandað,
glóandi hraun né hafíssins voldugu breiður.
Nú hafa skálkar, vorri þjóðarskútu strandað,
syrgðu, æðrast ei, heldur rís og ver reiður.

Því reiður Íslendingur er sem ískaldur jökull
illviðris bál sem öngvum eirir né lýtur .
Öskrandi Nautið, Örninn snareygur, vökull.
Ógnandi Risinn og Drekinn er eldörvum skýtur.

Svo hví skyldi þá kreppan oss hrella og hræða
né hrekja oss brott frá okkar ískalda landi.
Þegar illviðri og eldgos sem brenna og bræða,
berjast við það sem er landsins forni fjandi.

Rísum upp bróðir,réttlætis krefjumst að vonum
reiðinni beinum að þeim er að henni hlúa.
Sök bíti sekan, ábyrgð skal öxluð af honum
er allt vildi eiga, undiroka og kúga.

Já komdu bara landsins forni fjandi.
Þið föllnu sálir er Græðgin í álög hneppti.
Sem hallir byggðu himinháar í sandi.
Hrappur er glópagullinu aldrei sleppti.

Og sjá, Ísland, aftur upp mun rísa,
undurfagurt og tignarlegt á að líta.
Íslenska þjóðin, íslensk tunga og vísa.
Ísland með sín eldfjöll og jökla hvíta.

BT
 
Bjarni Tryggva
1963 - ...


Ljóð eftir Bjarna Tryggvasyni




Blóð og vinir!
Í myrkrinu!

Í dimmum dal