Herjólfur er hættur að elska
Herjólfur:
Stundum þrái ég að sjá stjörnurnar.
Þrái kitlandi sindur þeirra óþrjótandi í augunum.

Við sjáum aldrei stjörnurnar.

Rannveig:
Nei.

Herjólfur:
Ekki lengur.

???

Ekki lengur. Einu sinni.
Désirer.
Ég þráði þig.
Einu sinni.
Einu sinni sáum við stjörnurnar.
Einu sinni.

Ég man.
Fyrir löngu
þegar við gengum heim eftir götunni okkar í upplýstu myrkri borgarinnar.
Hjörtun staðföst í ást sinni
augun ístöðulaus
leitandi.
Ég man
fyrir löngu
sagðirðu: það er stjörnubjart.
Og það var stjörnubjart.
Fyrir löngu.
Skærustu stjörnurnar brutu sér leið gegnum ljósmengunarhjúpinn sem lá yfir borginni
gróf okkur í birtu.
Og við stönsuðum og þú horfðir upp í himinn. Hálsinn þinn fagri sveigður og augun.
Augun.
Fyrir löngu
horfðir þú á sindrandi stjörnurnar á næturhimninum. Þekkirðu stjörnurnar, spurðirðu.
Nei, svaraði ég, bara Karlsvagninn, kannski Óríon.
Já, sagðirðu og horfðir.
Fyrir löngu.

Ég sá aldrei stjörnurnar á himninum þetta kvöld.
Ég sá aðeins hvernig þær spegluðust í augum þínum.
Þessi skæra, sagðirðu, þessi skæra, hvað ætli hún heiti.
Venus
sagði ég
fyrir löngu.
Nei, sagðir þú, Pólstjarnan. Þetta er Pólstjarnan. Skær. Í norðrinu.
Ég horfði bara áfram í augun þín
Venus
sagði ég
Venus.
Fyrir löngu.

Í myrkri þungu mætast kannski varir
og magna lífsins slátt í þöglu brjósti
og eins og sækir aldan heim að landi
er öldugjálfrið ríslandi við hjartað.
Og nóttin breiðir næfurþunna slæðu
af nærfærni yfir höfuð okkar beggja
og stjörnur himins öfunda mig allar
því augu þín í mínu hjarta sindra.
Í myrkri þungu mætast varir okkar
og magna lífsins slátt í þöglu brjósti;
þá verður kyrrðin klökk af fegurð þinni

og kossar okkar stjörnublik á himni.  
Sigtryggur Magnason
1974 - ...
Brot úr bókinni <a href="http://edda.is/?pid=419" target="new">Herjólfur er hættur að elska</a>.
Mál og menning, 2002.
Allur réttur áskilinn höfundi.


Ljóð eftir Sigtrygg Magnason

Herjólfur er hættur að elska
Aldrei biður neinn að heilsa!
Friedrich Nietzsche með vasabókina sína á kaffihúsi